Skýrsla framkvæmdarstjóra

Starfsárið 2019 var Ungmennafélaginu Aftureldingu farsælt á mörgum sviðum. Félagið fagnaði 110 ára afmæli sínu í aprílmánuði og var því vel fagnað með hátíðaraðalfundi sem fram fór á afmælisdegi félagsins þann 11. apríl í Hlégarði. Fjölmargir tóku þátt í afmælisfögnuðinum en við svona tilefni sést glögglega hversu öflugt íþróttafélag Afturelding er og hversu margir eru tilbúnir að leggja félaginu lið.

Afturelding er íþróttafélag á uppleið og voru tekin jákvæð skref á mörgum sviðum á starfsárinu. Það er ákaflega ánægjulegt að finna kraftinn sem býr í iðkendum, þjálfurum og ekki síst sjálfboðaliðunum sem drífa starfið áfram.

Mannauður

Breytingar urðu í starfsmannahaldi í upphafi árs 2019 þegar Svava Sigurðardóttir var ráðin í fullt starf sem fjármálafulltrúi í aprílmánuði. Hún tók við stöðunni af Ásdísi Jónsdóttur sem hvarf til annarra starfa. 

Bókhaldi fyrirtækisins sem áður var úthýst var á nýjan leik tekið inn á skrifstofu félagsins og hefur Svava unnið mjög gott starf við að halda utan um víðfeðmt bókhald félagsins. Það er happafengur fyrir Aftureldingu að hafa fengið reyndan starfsmann í bókhaldi til starfa og munu gæði í þeirri vinnu halda áfram að aukast næstu árin.

Starfsfólk á skrifstofu á árinu 2018 voru eftirfarandi:

Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri, Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi og Svava Sigurðardóttir fjármálafulltrúi. Ásdís Jónsdóttir lét af störfum í apríl 2019. Gott og mikið starf er unnið á skrifstofu Aftureldingar í nánu samstarfi við sjálfboðaliða félagsins. Einnig hafa þau Ingibjörg Antonsdóttir, fimleikar, Alexander Sigurðsson, fimleikar og Bjarki Már Sverrisson, knattspyrna, aðstöðu á skrifstofu félagsins.

Aðstöðumál

Árið 2019 var ár framkvæmda á íþróttasvæðinu að Varmá. Árið fór vel af stað á því sviði þegar nýtt gólf var tekið í notkun í elsta íþróttasalnum að Varmá. Lagður var nýr dúkur á gólfið og undirstöður endurbyggðar. Mikil ánægja var með framkvæmdina en lengi hafði verið barist fyrir því að fá nýtt gólf í salinn.

Á vormánuðum hófust miklar framkvæmdir við knattspyrnusvæðið að Varmá. Ný 300 sæta stúka var byggð við gervigrasvöllinn og öryggissvæði var stækkað í samræmi við leyfiskerfi KSÍ. Um er að ræða mjög mikilvægar og jákvæðar breytingar sem munu hjálpa knattspyrnudeildinni til að taka skref áfram og bæta aðstöðu stuðningsmanna og gesta Aftureldingar.

Um sumarið var gólfið í nýrri salnum að Varmá endurnýjað frá grunni. Lagt var hágæða harðparket frá Agli Árnasyni í íþróttasalnum og er óhætt að segja að sú framkvæmd hafi heppnast vel. Handknattleiksdeildin tók að sér að sér í fjáröflun að rífa út eldra gólf og var það gert á methraða yfir sumarið. Fyrra gólf var farið að láta á sjá og ríkir mikil ánægja meðal iðkenda og afreksíþróttafólks með nýja gólfið. Einnig þykir birtan í salnum hafa lagast til muna við þessar breytingar. Á nýju ári verður einnig lýsing í salnum endurnýjuð ásamt því að þak á íþróttahúsinu fær nauðsynlegt viðhald.

Stærsta framkvæmd ársins var fjölnota knatthús í hálfri stærð en húsið var vígt formlega í nóvember 2019. Húsið er mikil aðstöðubylting fyrir félagið og ekki síst knattspyrnudeildina þar sem iðkendafjöldi hefur aukist hratt á undanförnum árum. Nýja knatthúsið mun nýtast Aftureldingu vel og fellur vel inn í landslagið að Varmá. 

Aðstöðumál félagsins verða áfram í brennidepli næstu misserin. Jákvætt samstarf hefur verið við Mosfellsbæ á undanförnum mánuðum hvað aðstöðumál snertir og erum við sem stýrum félaginu mjög bjartsýn á að aðstaða félagsins muni taka miklum framförum á næstu mánuðum og árum.

Fjármál

Fjárhagsstaða deilda Aftureldingar er almennt í góðu horfi. Flestar deildir eru reknar með hagnaði í ár og varasjóðir til staðar. Jákvæð þróun hefur orðið á fjárhagsstöðu þeirra ráða sem hafa lent í rekstrarerfiðleikum á undanförum árum. Rekstur aðalstjórnar gekk vel á rekstrarárinu.

Stefnan á árinu 2020 er að bæta enn í gæði þeirrar fjármálavinnu sem unnin er á skrifstofu Aftureldingar með það að markmiði að aðstoða deildir enn frekar við rekstur.

Næstu skref

Í upphafi ársins 2020 ákvað ég að segja starfi mínu lausu hjá Ungmennafélagi Aftureldingar eftir rúmlega þriggja ára starf. Sú ákvörðun var mér síður en svo auðveld enda hef ég eignast marga frábæra vini í félaginu og tekið þátt í skemmtilegu uppvaxtarskeiði hjá félaginu. Ég fer frá félaginu með söknuði en á sama tíma stoltur af mínum verkum og því frábæra samstarfi sem ég hef átt við aðalstjórn félagsins og deildir.

Afturelding hefur fulla burði til að verða eitt af stærstu íþróttafélögum landsins sem skarar fram úr á mörgum sviðum. Félagið hefur að geyma ótrúlegan mannauð, bæði í starfsfólki og sjálfboðaliðum sem drífa starfið áfram. Með bættri aðstöðu, samhug og einingu er Afturelding á réttri leið.

Takk fyrir samstarfið á síðustu árum!

Áfram Afturelding!

Jón Júlíus Karlsson
framkvæmdastjóri Aftureldingar