Skýrsla íþróttafulltrúa

Árið 2019 var einsog öll ár í íþróttastarfi: Skemmtilegt, eftirminnilegt og krefjandi.

Vel menntaðir þjálfarar

Það er líklega ekki hægt að ræða árið án þess að nefna þjálfarana okkar.

Við hjá Aftureldingu höldum okkar stefnu að innan okkar raða eru þjálfarar sem eru vel menntaðir á sínu sviði og færir til að takast á við þau verkefni sem þeir fá í hendurnar. Þjálfaranámskeið sérsambandannna eru vel sótt af okkar þjálfurum sem og þjálfaranámskeið ÍSÍ.

Við erum svo heppin að í dag starfa margir af menntuðustu þjálfurum landsins hjá okkur sem hafa lokið námi hjá alþjóðlegum íþróttasamböndum.

Til að halda vel utan þessum duglegu og metnaðarfulllu þjálfara sem við erum með, og minna þau á hversu frábær þau eru, höldum við árlegan starfsdag. Í ár komu þau Anna Steinsen og Bjartur Guðmundsson leikari, og ræddu um jákvæð samskipti. Við, sem starfsmenn íþróttafélags, iðkendur og sjálfboðaliðar, höfum heldur betur gott af því að hlusta á þessi fræði reglulega. Þetta er nauðsynleg vitneskja sem alltaf þarf að vera hægt að sækja og vinna með.

Við hófum árið á skyndihjálparnámskeiði, sem er alltaf vel sótt. Þetta námskeið er líklega það auðveldasta fyrir mig, þar sem þjálfarar félagsins gera sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að finna til aukins öryggis í vinnu þegar þau hafa lokið skyndihjálparnámskeiðinu.

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

Á 110 ára afmæli Aftureldingar fengu allar deildir Aftureldingar þann eftirsótta gæðastimpil frá ÍSÍ, Fyrirmyndafélag ÍSÍ. Til að öðlast þessa viðurkenningu þurfti hver deild að skila inn handbók þar sem markmið deildanna og ýmsar stefnur sem þær hafa sett sér eru útlistaðar. Þessar stefnur varða m.a. þjálfaramál, forvarnir og siðferðisreglur.  Við erum eðlilega ákaflega montin af hafa náð þessum áfanga.

Sideline-sports

Í upphafi haustannar skrifaði Aftureldinga undir samstarfssamning við Sideline-sports, forrit sem auðveldar ekki bara þjálfurum, heldur kemur einnig til með að auka gæði á æfingum, þjónusta forráðamenn og hjálpa íþróttafólkinu okkar að ná sínum markmiðum. Við erum sérlega spennt fyrir komandi tímum og aukinni notkun á þessu kerfi.

Árinu var svo lokað á hefðbundin hátt, þegar við krýndum íþróttamann- og konu Aftureldingar 2019. Í ár voru hlutskörpust þau Þórður Jökull úr karatedeildinni og Þóra María, handknattleikskona. Fleiri einstaklingar og hópar fengu viðurkenningar fyrir vel unnin störf. Ef við gætum, þá myndum við veita ölllum verðlaun við þessa skemmtilega athöfn.

2020 er svo strax farið að standa undir væntingum sem skemmtilegt, eftirminnilegt og krefjandi.

Áfram Afturelding!!

Hanna Björk Halldórsdóttir,
Íþróttafulltrúi Aftureldingar