Ávarp formanns

Árið 2019 var merkisár í sögu Aftureldingar en félagið varð 110 ára þann 11. apríl. Af því tilefni var haldinn hátíðarfundur í Hlégarði. Fundurinn var sérstaklega vel sóttur af félagsmönnum og fengum við líka góða gesti meðal annars Menntamálaráðherra, Lilju Dögg Alfreðsdóttur sem flutti ávarp sem og bæjarstjórann okkar Harald Sverrisson, sem að þessu tilefni gaf félaginu vilyrði fyrir þarfagreiningu/hönnun á framtíðarsýn Varmársvæðisins. Afturelding hefur í framhaldinu unnið þarfagreiningu með innleggi frá öllum deildum og skilað til bæjarins. Í haust er svo fyrirhugað að kynna afraksturinn og þá kemur að okkur að forgangsraða verkefnum til næstu 10 – 15 ára og bíðum við mjög spennt eftir þessari niðurstöðu. Þetta mun auðvelda bæði okkur í félaginu og bænum að halda áfram að byggja upp og halda yfirsýn yfir viðhald og nýframkvæmdir.

UMSK færði okkur að gjöf upptökubúnað sem hefur verið vel nýttur við upptöku á viðburðum félagsins. Á afmælisdaginn var afhjúpað merki félagsins við innkeyrsluna að Varmá sem Þorrablótsnefndin gaf við hátíðlega athöfn.  Það er alltaf gaman að vera afmælisbarn og þökkum við kærlega fyrir okkur.

Við þessi tímamót var sérstaklega gaman að fá viðurkenninguna, fyrirmyndarfélag frá ÍSÍ en allar deildir félagsins uppfylltu skilyrði fyrir henni og erum við virkilega stolt af því.

Afmælisárið viðburðarríkt

Afmælisárið okkar var viðburðarríkt í félaginu og frábær árangur náðist í hinum ýmsu íþróttagreinum. Íþróttamaður ársins 2019 var kjörinn Þórir Jökull Henrysson karate og íþróttakona ársins var kjörin handboltakonan Þóra María Sigurjónsdóttir. Þau eru bæði miklar fyrirmyndir og eru í fremstu röð afreksfólks í sínum greinum.

Stöðugur vöxtur er í félaginu og fjölgun iðkenda er 96 milli ára eða 6,9 %.  Á bak við þennan fjölda eru rúmlega 1.300 kennitölur sem er fjölgun um rúmar 60 kennitölur milli ára. Þar af eru 163 iðkendur sem æfa með tveimur deildum og 4 iðkendur sem æfa með þremur deildum. Hlutfall fjölgreinaiðkenda hækkar úr 10,75% í 12,77%. Knattspyrnudeildin er sem áður fjölmennasta deildin með 574 iðkendur ( 38,8% ) en Fimleikar og Handbolti fylgja á eftir með 284 og 243 iðkendur, hér erum við að tala um iðkendur á aldrinum 4 – 19 ára.

Afturelding býður uppá frábært starf í 11 greinum og hefur nú rafíþróttadeild bankað á dyrnar, sem við fögnum mjög og vinnum með þeim næstu skref.

Við erum með meistaraflokka í efstu deildum í handbolta og blaki en meistaraflokkar okkar í knattspyrnu spila báðir í næst efstu deild. Það er mikill hugur í okkur í Aftureldingu, á haustmánuðum var tekið í notkun nýtt fjölnota knatthús sem á eftir að bæta aðstöðu þeirra greina sem þar æfa mjög mikið.

Við eigum töluvert mikið af iðkendum í landsliðsverkefnum sem við erum skiljanlega mjög stolt af.

Starfsdagur þjálfara og sjálfboðaliða hefur fest sig í sessi þar sem við fáum áhugaverð fagleg erindi og þéttum raðirnar, markmið starfsdags er fyrst og fremst að fræða þjálfara og auka félagsleg tengsl milli deilda enda ekki á hverjum degi sem þessum mannauði gefst tækifæri til að hittast öll á sama stað á sama tíma af því að þó að við séum 11 deildir þá erum við öll Afturelding.

Þó svo að þetta sé skýrsla fyrir síðasta starfsár þá get ég ekki annað en aðeins nefnt síðustu mánuði. Síðastliðnir mánuðir hafa verið okkur virkilega krefjandi þar sem ekkert starf fór fram nema með rafrænum hætti. Mig langar að hrósa ykkur, stjórnarfólki, starfsfólki og þjálfurum sérstaklega fyrir að vera fljót að tileinka ykkur nýja hugsun, þetta hefur ekki verið auðvelt. Svona aðstæður eru krefjandi og ég held að við höfum lært heilmikið sem við vonandi gleymum ekki jafnóðum. Það er von mín að við verðum áfram sterk heild og vinnum þétt og vel saman eins og áður.

Ég skora á alla að gerast sjálfboðaliðar hjá okkur þetta er svo gaman og maður kynnist svo mörgu góðu fólki. Höfum bara í huga að bera virðingu hvert fyrir öðru, ég fullyrði að við erum hér öll að gera okkar allra besta og af góðum hug. Það er ekkert að því og oft fjörugt að skiptast á skoðunum og verum dugleg við það, en berum samt virðingu fyrir skoðunum hinna þó að við séum ekki sammála, stundum þurfum við að vera sammála um að vera ósammála.

Ég er fyrir hönd Aftureldingar verulega bjartsýn á framtíðina.

Áfram Afturelding!

Birna Kristín Jónsdóttir,
formaður Aftureldingar