Skýrsla stjórnar

Aðalfundur badmintondeildar Aftureldingar var haldinn miðvikudaginn 20. mars 2019. Á fundinum voru hefðbundin aðalfundarstörf og kosning stjórnar. Haukur Örn Harðarson formaður deildarinnar steig þá til hliðar og lauk sínum störfum fyrir deildina.

Stjórn

Ný stjórn var kosin á fundinum og skipti hún með sér verkum. Ný stjórn var sem hér segir: Þorvaldur Einarsson formaður, Jóna Einarsdóttir gjaldkeri, Egill Magnússon, Dagný Kristinsdóttir og Kristján Halldórsson meðstjórnendur.

Þjálfarar

Þjálfarar deildarinnar voru Árni Magnússon og Andrés Ásgeir Andrésson. Þorvaldur Einarsson og Egill Magnússon komu að þjálfun í fjarveru Árna og Andrésar.

Æfingar og iðkendur

Badmintondeild Aftureldingar samanstóð af 4 hópum. U9, U13, 13+ og Fullorðinshóp.
U9, 6-9 ára voru 6 skráðir iðkendur á vorönn og 8 á haustönn.
U13, 10-12 ára voru 11 skráðir á vorönn og 15 á haustönn.
+13, 13-19 ára voru 12 skráðir á vorönn og 17 á haustönn.
Fullorðinshópur, +19 ára voru 9 skráðir á vorönn og 32 á haustönn.
Alls voru því 38 skráðir iðkendur á vorönn og 72 á haustönn.

U9 hópurinn var með fastan tíma 1x í viku en U13 og 13+ voru með alls 3 tíma í viku en þar af var 1 sameiginlegur tími á miðvikudögum. Fullorðinshópurinn var með 3 tíma í viku en þar af var einn tími í viku með þjálfara.

Deildin byrjaði að vera með fjölskyldutíma á sunnudögum sem aðallega var hugsaður fyrir yngstu iðkendurna að mæta með foreldrum og slá á milli og hafa gaman. Þessir tímar hafa verið vel sóttir og þykja hin mesta skemmtun.

Starfsemin

Árið hjá badmintondeildinni hefur verið viðburðarríkt hvað mótamál varðar og hafa bæði yngri og eldri iðkendur verið dugleg að mæta í þau mót sem hafa verið haldin á vegum annarra badmintonfélaga sem og badmintonsambands Íslands.

Vorönn
Vorönnin hófst í fyrstu viku í janúar 2019. Skráðir voru í heildina 38 iðkendur í deildina, þar af 29 í barna- og unglingastarfið.

Á vorönn er Íslandsmót Unglinga hápunkturinn en það mót var haldið í TBR húsunum þann 23. og 24. mars 2019 og átti Afturelding þar fulltrúa á palli þar sem Dagbjört Erla Baldursdóttir vann sinn flokk í einliðaleik.

Í fullorðinshópnum eru 2 hápunktar á vorönn en það er annars vegar Deildakeppni BSÍ og hins vegar Meistaramót Íslands. Afturelding tefldi fram sterku liði í B-deild í deildakeppni BSÍ
árið 2019 sem haldið var í TBR húsunum þann 15-17 febrúar. Þar tapaði lið Aftureldingar mjög naumlega í úrslitaviðureign við lið frá Badmintonfélagi Hafnarfjarðar. Liðið endaði því með silfur í keppninni sem er vel gert. Afturelding átti einnig fulltrúa í Meistaramóti Íslands sem fram fór þann 5-7 apríl í íþróttahúsi BH í Hafnarfirði. Þar endaði Sunna Karen Ingvarsdóttir með að vinna sinn flokk í einliðaleik kvenna. Vorönn deildarinnar lauk svo með fjölskylduæfingu og pizzuveislu.

Haustönn
Haustönn hófst í byrjun september og varð mikil aukning í iðkendahóp deildarinnar. Í byrjun annar var gerð ársáætlun fyrir tímabilið 2019-2020 ásamt því að farið var í markmiðasetningu fyrir deildina. Eitt af markmiðum deildarinnar var að fjölga iðkendum í a.m.k. 60 og var þeim markmiðum náð og gott betur þar sem talsverð fjölgun varð í barna- og unglingastarfinu og algjör sprenging í fullorðinsstarfinu. Í heildina skráðu 72 iðkendur sig í deildina en þar af voru 40 í barna- og unglingastarfinu. Annað markmið deildarinnar var að fá góða mætingu í fjölskyldutímana á sunnudögum, sem varð raunin og hafa þeir tímar gengið mjög vel.

Deildin setti sér það markmið að auka þátttöku iðkenda í badmintonmótum og má með sanni segja að það hafi gengið eftir en þó má gera enn betur. Eitt af markmiðum deildarinnar var að auka félagslífið með viðburðum ótengdum íþróttinni en það markmið var sett fram með það fyrir augum að gera deildina meira spennandi fyrir krakkana. Ekki hafa enn verið haldnir viðburðir sem þessir en það er von deildarinnar að þetta geti orðið að veruleika og að það skapist hefð fyrir félagsviðburðum á vegum deildarinnar.

Unglingamót Aftureldingar er haldið ár hvert og að þessu sinni var það haldið 23.-24. nóvember og voru 126 keppendur skráðir í mótið. 16 keppendur tóku þátt í mótinu fyrir hönd Aftureldingar og stóðu sig allir með stakri prýði. Rebekka Ösp Aradóttir stóð uppi sem sigurvegari í sínum flokk í einliðaleik og Ágúst Páll Óskarsson fékk silfurverðlaun í einliðaleik í sínum flokk.

Auk Unglingamóts Aftureldingar tóku krakkarnir þátt í fjölmörgum öðrum mótum og má þar nefna að deildin fór í tvær keppnisferðir norður á land. Þann 14 september kepptu nokkrir krakkar í Haustmóti KA og stóðu sig mjög vel þó enginn hafi endað á palli. Helgina 7.-8. desember 2019 var svo farið á Siglufjörð á Unglingamót TBS þar sem 8 keppendur á vegum Aftureldingar tóku þátt. Krakkarnir stóðu sig mjög vel þar sem Brent John Inso vann til tveggja gullverðlauna, í einliða og tvíliðaleik og Kird Lester Inso vann til tveggja silfurverðlauna í einliða- og tvíliðaleik en hann lék með Ástþóri Gauta Þorvaldssyni í tvíliðaleik. Iðkendur úr fullorðna hópnum tóku einnig þátt í hinum ýmsu mótum og stóðu sig vel og voru sínu félagi til sóma. Haustönn deildarinnar lauk með jólaæfingu þar sem foreldrum og systkinum iðkenda í yngri hópunum var boðið að koma og spila. Að lokinni æfingu var pizzaveisla í boðið deildarinnar.

Aðstaðan

Badmintondeildin hefur verið með æfingar í sölum 2 og 3 í Íþróttamiðstöðinni að Varmá og hefur fullorðinshópurinn verið með einn tíma í viku í Íþróttahúsinu í Lágafelli. Í sal 3 að Varmá hafa U13 og 13+ verið að æfa 2x í viku og á sunnudögum er þar einnig fjölskyldutími deildarinnar. Í salnum eru 5 tvíliðaleiksvellir og 7 einliðaleiksvellir. Í sal 2 hafa allir yngri flokkarnir verið 1x í viku en fullorðinshópurinn hefur verið í salnum 2x í viku. Salurinn hefur alls 7 velli en þar af er einn völlur ónothæfur sökum fréttamannastúku sem trónir yfir vellinum. Í sumar var skipt um gólf í sal 1 og 2 sem hefur tekist ágætlega til en ennþá má segja að lýsingin í salnum sé ekki nægilega góð fyrir badmintoniðkun. Í kjölfarið af því að skipt var um gólf í sal 1 og 2 þá voru keyptar nýjar súlur fyrir badmintonvellina en í heild eru 14 badmintonvellir í sölunum báðum. Í mótum eru notaðir 10-11 vellir en áhorfendapallar taka út 2 velli og er svo 1 völlur ónothæfur eins og áður sagði.

Fjármál

Badmintondeild Aftureldingar stendur vel hvað fjármálin varðar. Eiginfjárstaðan er góð og hafa tekjur deildarinnar staðið undir útgjöldum s.l. ár. Deildin hefur ekki verið að taka þátt í fjáröflunum en iðkendur hafa þó verið að taka þátt í fjáröflunum á vegum Aftureldingar. Tekjur deildarinnar samanstanda aðallega af æfingagjöldum, framlögum og styrkjum ásamt tekjum af mótahaldi. Stærsti útgjaldaliðurinn er laun og verktakagreiðslur, áhalda- og tækjakaup (aðallega fjaðraboltar) ásamt þátttöku í mótum.

Framtíðarstefna

Í apríl árið 2019 fékk Afturelding viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Því fylgir að deildir setji sér bæði stefnur og markmið í starfinu. Meðal markmiða sem nefna má í þessu samhengi eru markmið um iðkendafjölda og lágmörkun á brottfalli barna og unglinga, aukin gæði í bæði stjórnun og þjálfun deilda, auka gæði í aðstöðu- og áhaldamálum, styrkja fjárhagslegan grunn, styrkja ímynd útávið o.s.frv. Meðal stefnumála félagsins er að vera með menntaða þjálfara og að þjálfarar séu meðvitaðir um nýjustu stefnur og strauma í viðkomandi íþróttagrein og sæki námskeið til að bæta sína þekkingu á greininni.

Það er ljóst að badmintondeild Aftureldingar þarf að halda áfram að vaxa og þróast. Það má með sanni segja að þjálfaramál deildarinnar eru í góðum höndum og það ætti að vera auðvelt að byggja ofan á þann trausta grunn sem þar er fyrir. Markmið badmintondeildarinnar er að allir iðkendur fái rétta og góða þjálfun, sama á hvaða getustigi þeir kunna að vera. Hluti af því markmiði er að skoða möguleika á að fá inn sérhæfða þjálfara í hlutastarfi sem geta séð um sérhæfðar  tækniæfingar fyrir þá sem eru lengra komnir.

Meðal annarra atriða sem má nefna er fyrirætlun deildarinnar að kaupa sjálfvirka, forritanlega sendingarvél sem ætlað er að auka gæði þjálfunar m.t.t. höggæfinga, fótaburðar og tækni. Þá er það einnig trú deildarinnar að vélin verði aðdráttarafl fyrir iðkendur og skili sér í betri badmintonspilurum á skemmri tíma.

F.h. stjórnar
Þorvaldur Einarsson
Formaður badmintondeildar Aftureldingar

Nánari upplýsingar um deildina

Heimasíða Badmintondeildar Aftureldingar
Facebooksíða Badmintondeildar Aftureldingar