Skýrsla stjórnar

Mikið og annasamt blakaár er að baki  og einnig afmælisár. Blakdeild Aftureldingar var stofnuð og fékk sína kennitölu árið 1999 og hélt því upp á 20 ára afmælið á síðasta ári.  Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan þá en deildin var stofnuð í kringum frístundarblak kvenna og voru um 12 konur að æfa fyrstu 2 árin.  Eftir fyrsta Öldungamótið okkar vorið 2002 fór boltinn að rúlla og stofnuðum við barna-og unglingadeildina í kjölfarið og höfum við verið óstöðvandi síðan.

Afturelding var með mörg lið í Íslandsmóti Blaksambands Íslands á síðasta leikári og spannaði aldurinn á þátttakendum sem tóku þátt í móti fullorðinna allt frá 15 ára og upp úr auk þess að vera með lið  í Íslands- og bikarmótum yngri flokka og taka þátt í Öldungamóti BLI í Keflavík 2019 en þar tefldi félagið fram 6 liðum sem spiluðu undir merkjum félagsins.

Alls átti Afturelding 4 lið sem spiluðu heima og að heiman í Íslandsmótinu 2018-2019

Blakhóparnir

Meistaraflokkur karla sem tefldi fram liði í Mizunodeild karla og einnig B liði í 1.deild karla og voru það ungu drengirnir í 2. og 3.flokki sem spiluðu þar og fengu mikilvæga leikreynslu.

Meistaraflokkur  kvenna sem spilaði í Mizunodeild kvenna og voru ungu stúlkurnar í aðalhlutverki þar og fengu mikilvæg reynslu einnig.

Meistaraflokkar kvenna  í 1-4 deild sem eru í rauninni 3 lið en telst sem einn æfingahópur og tekur þátt í Íslandsmótinu með lið í 1. deild og eitt lið  4.deild kvenna.

Afturelding Töff  sem spilaði  í 6..deild kvenna og unnu hana glæsilega og sem telja 2 lið.

Afturelding Bombur sem er kvennahópur sem byrjaði í febrúar og komu svo af fullum krafti inn í september  2019 og ná þær í 2 lið einnig.

Afturelding karlahópur sem spilar á Öldungamótum og æfir einu sinni í viku.

Afturelding- Polska æfði einnig og spilaði undir merkjum félagsins í 2.deild karla

Blakhópurinn Steve Öxl sem einnig er karlahópur og  æfir einu sinni í viku og það er ljóst að það er pláss fyrir nokkra karlmenn í viðbót, bæði byrjendur og lengra komna.

Í yngri flokkum  höldum við út æfingar fyrir:

2.fl kvenna

3+4fl stúlkna

4.fl. pilta

6-7 flokkur blandaðan

 

Fjárhagslegt umhverfi

Fjárhagslega þá er umhverfið erfitt fyrir blakíþróttina því erfitt er að selja auglýsingar á eitthvað sem er aldrei sýnt í sjónvarpi eða fjallað um í fjölmiðlum og því eru þær fjáraflanir sem við höfum, okkur afar dýrmætar.  Þar erum við að tala um æfingabúðir bæði fyrir börn og fullorðna sem og skemmtimót og Íslandsmót.

Sameiginleg fjáröflun Barna – og unglingaráðs og meistarflokkanna okkar er happdrættið og er það ákaflega mikilvæg fjáröflun og vonast ég til þess að allir iðkendur blakdeildarinnar í öllum flokkum kaupi amk 1-2  miða til að styrkja starfið. En núna fær hver iðkandi 500 krónur af hverjum seldum miða beint í eigin vasa.  Við forum í þá nýbreytni í vetur að selja flatkökur sem fjáröflun upp í sameiginlegan kostnað  sem  BUR og meistaraflokkarnir bera.  Við bjuggumst við betri heimtum af því en erum ekki af baki dottin og höldum við að þessi fjáröflun gæti verið góð viðbót því hver einasta króna telur. Einnig er hreinsunarátak bæjarins sameiginleg fjáröflun þessa hópa  mjög mikilvæg.

Sala á auglýsingaskiltum í sal 3 er hlutur sem við viljum koma í betra horf og sjá þar auglýsingar frá þeim fyrirtækjum sem styrkja okkur sannarlega en ekki gamlar auglýsingar sem einhvern veginn eru bara þarna  og vonumst við til þess að fá inn fastan tekjupóst úr þeim.  Við erum ákaflega þakklát  bæði Verslunartækni, Borgarverk og Mosfellsbakaríi fyrir stuðninginn á liðnu keppnistímabili.

 

Starfið

Það eru flestir sammála því að afreksstarf er nauðsynlegt innan íþróttafélaga og að það hvetur yngri iðkendur til dáða og fyrir þá sem stefna hærra þá er það nauðsynlegt.  Hér í nálægðinni við höfuðborgarsvæðið er það ennþá mikilvægara að geta verið með gott starf í afreksíþróttum í heimabyggð því það er stutt í öll félögin í nágrenninu.

Auk þess er það skylda blakdeildar að bjóða upp á almenningsíþróttir og bjóða börnum og unglingum að æfa íþróttina þó þau stefni ekki á að verða  afreksfólk í íþróttinni.   Okkar vandamál er hins vegar eins og ég hef komið inn á hér, að íþróttin okkar er lítið sýnileg og því ekki sjálfsagt að börn og ungmenni velji að æfa blak í Mosfellsbæ. Fyrir börn og unglinga er það ekki síður mikilvægt að þau viti og finni að þó að þau verði ekki afreksfólk eða stefni á það að það sé samt pláss fyrir þau innan íþróttarinnar og það gerum við með því að halda úti hópum sem æfa sér til skemmtunar og taka þátt í skemmtimótum.

Ennþá  megum við ekki kynna þetta í skólunum okkar hér í bæ og er það ákaflega undarleg stefna og vil ég  nota tækifærið og hvetja aðalstjórn Aftureldingar til þess að beita sér í því að afnema þennan sið sem hefur verið komið á af skólunum en eins og allir vita þá er íþróttaþátttaka barna og unglinga ein besta forvörnin og undarlegt þegar bæjaryfirvöld og skólasamfélagið vilji ekki styðja við það starf.

Sumar íþróttir þarf að kynna betur en aðrar og því skora ég á aðalstjórn að fá leyfi fyrir þær íþróttagreinar sem ekki fá áheyrn í sjónvarpi eða umfjöllun í blöðum en eru sannarlega í boði innan Aftureldingar  að þær fái að kynna starf sitt innan veggja skólanna. Það er jú skrautfjöður félagsins hversu margar íþróttagreinar er boðið upp á í félaginu okkar og við verðum að reyna að halda því en ef við náum ekki að fjölga iðkendum þá verður æ erfiðara að reka litlu deildarnar.

Flaggskip Blakdeildarinnar eru að sjálfsögðu meistaraflokkarnir okkar sem spila í úrvalsdeildum karla og kvenna og eru það fyrirmyndir ungu iðkendanna okkar og liggur það í hlutarins eðli að þær eru dýrastar í rekstri og því leggjum við mikla áherslu á að finna stuðningsaðila til að auðvelda þann rekstur en rekstarstyrkur Mosfellsbæjar er mikil búbót í því verkefni og skipta sköpum í því að halda úti metnaðarfullt starf í meistaraflokkunum.

Strandblaksvöllurinn á Stekkjarflöt er í umsjón blakdeildarinnar og höfum við umsjón með honum. Við höfum verið í góðu sambandi við bæjinn varðandi það og nú í vor komu 10 tonn af sandi og búið er að setja upp girðingar í kringum völlinn svo boltinn rúlli ekki út og suður. Einnig á eftir að koma veggur fyrir ofan völlinn og skilti með reglum vallarins á.  Og svo á auðvitað eftir að setja upp salernis aðstöðu þarna og þá er þetta fullkomið.

Blakdeildin rekur Aftureldingarbúðina sem  hefur ekki gefið mikið af sér en búið er að fjárfesta í vörum þar til að bjóða foreldrahópum og foreldrum almennt  upp á að kaupa  Aftureldingarvörur í íþróttamiðstöðinni svo ekki þurfi að leita út fyrir bæjarmörkin. Einnig hefur búðin tekið þátt og boðið upp á vörur í fjáröflunum Aftureldingar sem byrjað var með  fyrir jólin og allir geta tekið þátt í.

Í haust gekkst blakdeildin fyrir þvi að öllum börnum í Aftureldingu væru gefin endurskinsmerk og var það í annað sinn sem það var gert og nú létum við framleiða merki í formi armbanda með merki Aftureldingar á  og gátum við bætt við 5 ára börnum í leikskólum bæjarins  inn í hópinn svo öll börn í Mosfellsbæ frá 5 -16 ára aldri fengu gefins endurskinsmerki. Við erum ákaflega stolt af þessu verkefni en til að gera þetta mögulegt þá leituðum við til fyrirtækja í Mosfellsbæ sem styrktu verkefnið mismikið  en margt smátt gerir eitt stórt og erum við afar þakklát þessum fyrirtækjum. Frétt um þetta kom á heimasíðu samgöngustofu og var það afar ánægjulegt.

Blakdeildin hefur séð um og skipulagt æfingabúðir barna- og unglinga á landsvísu í ágústmánuði undanfarin 10 ár og sækja um 100 krakkar búðirnar yfirleitt. Einnig er fastur liður Áramótið á gamlársdag þar sem um 80 iðkendur koma og spila um titilinn blakkóngur og blakdrottning ársins og er það mót opið fyrir alla og mjög skemmtilegt.  Bæjarhátiðin Í túninu heima fer fram síðustu helgina í ágúst og þar er Blakdeildin með stórt verkefni en við komum að Tindahlaupinu sem hefur stækkað mjög mikið s.l. ár en ásamt Mosfellsbæ og Björgunarsveitinni sjáum við um alla skipulagningu og brautarvörslu við hlaupið.

Aðstaðan

Aðstaða blakdeildarinnar er eins og best er á kosið hvað blakiðkun og undirlag á blakgólfi varðar eftir að nýtt gólf var sett á í sal 3 á síðasta ári.

Aðstaðan til líkamsræktar og styrktarþjálfunnar er hins vegar afleit og hefur blakdeildin kvartað yfir því til framkvæmdarstjóra félagsins og til aðalstjórnar og er þar um að ræða  framkoma Hjalta Úrsusar í garð leikmanna okkar í meistaraflokkunum þegar þeir mæta í sína styrktarþjálfun. Hann hefur sýnt okkar leikmönnum óásættanlega hegðun og sérstaklega í ljósi þess að Mosfellsbær greiðir honum fyrir þau kort sem meistaraflokksleikmenn okkar fá til að stunda sína styrktarþjálfun hjá honum. Margir af okkar leikmönnum eru landsliðsleikmenn og er styrktarþjálfunin stór partur af þeirra æfingaprógrammi.

Ljóst er að meistaraflokkar félagsins hafa engan áhuga á því að æfa þarna undir svona framkomu og viljum við beina því til aðalstjórnar að þeir falist eftir því að bærinn styrki leikmennina með því að kaupa kort annars staðar eða  afhenda deildunum peninginn beint svo leikmenn okkar geti farið annað þar em þeir eru velkomnir.  Við þurfum að fá þessi mál á hreint og ég veit að fleiri deildir innan félagsins eru mjög óánægð með þessa styrktarþjálfunaraðstöðu sem okkur er boðið upp á eins og sést á því að t.d. handboltinn er búin að semja við stöð í Kópavogi og er það klárlega næsta skref hjá okkur líka verði ekkert að gert í þessum málum. En af hverju á þess að þurfa? Við höfum allt til alls en megum ekki nýta það en það er búið að borga fyrir það.

Meistaraflokksráð deildarinnar hefur lagt mikið upp úr umgjörð á leikjum meistaraflokkanna okkar.  Höfum við látið útbúa fána af hverjum leikmanni sem hanga uppi á leikjum liðanna. Einnig höfum við látið útbúa létt skilti til að afmarka völlinn með logoi styrktaraðila okkar á ásamt merki félagsins og kemur það vel út auk þess sem þau nýtast einnig sem boltavörn á milli valla þegar mót eru haldin. Á síðasta leikári voru keyptar spjaldtölvur til að aðstoða dómara í sínum störfum á okkar heimaleikjum. Á leiktíðinni 2019-2020 tók BLI upp þá nýbreytni að sýna alla leiki beint í gegnum streymi á mótasíðu sambandsins  og setti upp vélar í öll húsin á landinu og vil ég nota tækifærið og þakka fyrir það.  Það er góð viðbót í annars flotta umgjörð okkar fólks. Einnig var farið í að fá leikgreinanda erlendis til að greina heimaleiki liðsins og var honum sérstaklega greitt fyrir það og það þýðir að þjálfararnir okkar hafa mun betri upplýsingar eftir leikina.

Búningamálin

Nú eru 2 ár liðin síðan Afturelding gekk til saminga við JAKO.  Ljóst var í upphafi að þeir væru ekki með blakbúninga fyrir kvennaliðin okkar og var það sammælum bundið að JAKO myndi ganga svo frá málum að það yrði gerður blakbúningur fyrir konurnar. Búningurinn var teiknaður og samþykktur en svo var hætt við frá JAKO og reynt að finna annann búning en ekkert hefur gengið.  Nú  þegar hafa tvær leiktíðar liðið og ekki bólar ennþá á blakbúningum.  Fundað var með aðalstjórn  í haust og ákveðið var að formaður félagsins og  framkvæmdarstjóri  færu i málið en ekki hefur heyrst  eftir það og kalla ég eftir því að Aðalstjórn Ungmennafélagsins Aftureldingar beiti sér í þessu máli og sjái til þess að JAKO haldi samning sinn við kvennaliðið okkar eins og önnur lið í félaginu.  Við tókum inn einhvers konar hlaupaboli í haust sem alls ekki eru blakbúningar og eru ekki ásættanlegir en það var þrautarlending því ekki gátum við spilað í Errea búningnum aftur 4.árið í röð í sömu bolum. Þetta er samningsbrot og mikil mismunun í gangi hvað þetta varðar og alls ekki ásættanlegt.

Blakfólk deildarinnar

Blakkona Aftureldingar 2019  var valin Kristina Apostolva og Blakmaður Aftureldingar var Alexander Stefánsson og voru þau bæði mjög vel að þessum tilnefningum komin en þau spiluðu bæði mjög stór hlutverk í úrvalsdeildarliðum okkar á síðustu leiktíð og eru mjög mikilvægir leikmenn fyrir uppbygginguna.

 

Uppskera tímabilsins 2018-2019 var góð í heildina fyrir blakdeildina og hlutu bæði Mizunoliðin okkar brons á Íslandsmótinu 2019.  Í haust var farið  markvisst í það að skapa reynslu hjá leikmönnunum okkar og byggja til framtíðar..  Þannig vorum við með B lið í 1.deild karla og kvenna og því var síðasti vetur mjög stór og vil ég nota tækifærið og hrósa báðum liðunum okkar fyrir mikin metnað því flest af þeim mættu á allar æfingar hjá meistaraflokkunum, spiluðu síðan alla 1.deildar leiki og voru með á öllum leikum í Mizunodeildunum auk þess að taka umsjónir þær sem til féllu.  T.d. spiluðu stelpurnar í 1.deildinni samtals 20 leiki þar og síðan voru 13 leikir spilaðir í Mizunodeildinni fyrir utan leiki í bikarkeppni bæði fyrir þeirra eigin aldursflokk sem og fullorðinna.

Landsliðin

Blakdeildin átti marga fulltrúa í æfingahópum og landsliðum Íslands á liðnu ári, bæði í unglinga- sem og A landsliðunum eins og sást á uppskeruhátíð Mosfellsbæjar í janúar.

Thelma Dögg Grétarsdóttir var sæmd silfurmerki BLI eftir að hafa spilað sinn 50.landsleik á Novotel Cup mótinu í janúar.  Systir hennar Daníela Grétarsdóttir var sæmd bronsmerki sambandsins við sama tilfelli þegar hún spilaði sinn fyrsta A-  landsleik ásamt Valdísi Unni Einarsdóttur og Kristínu Fríðu Sigurborgardóttur.   Samtals fóru 8 leikmenn úr Aftureldingu með landsliðunum í þessa ferð, 5 í kvennaliðinu og 3 í karlaliðinu  auk þess sem þjálfarar kvennalandsliðsins voru þjálfarar meistaraflokks Afturleldingar þau Borja Vincente og Ana Maria Vidal og sjúkraþjálfarinn í för var einnig úr okkar röðum en það var Lilja Minný Sigurbjörnsdóttir sem æfir og spilar með 1.deildar liðinu okkar.

Íslandsmótið

Í haust sendi blakdeildin 2 karlalið og 6 kvennalið á Íslandsmót Blaksambands Íslands.  Nýtt fyrirkomulag var síðasta vetur og mátti nú senda B lið í 1.deildir karla og kvenna. Máttu leikmenn í þeim liðum spila jöfnum höndum í 1.deild og úrvalsdeildinni. Bæði liðin í 1deildinni unnu deildina og voru búin að tryggja sér deildarmeistaratitilinn áður en keppnin kláraðist. Markmiðið með B -liðum í 1.deildum var að fá dýrmæta spilareynslu og teljum við að það hafi tekist mjög vel því unga fólkið okkar spilaði þessa leiki í 1.deildinni.

Stúlkurnar  í 2 flokki yngri  spiluðu í 3.deild kvenna og því voru það 3 unglingalið sem kepptu í deildum fullorðinna á síðasta leikári.

Því miður þá náðist ekki að klára leiktímabilið 2019-2020 né heldur FINAL 4 helgina í Kjörísbikarnum þar sem við vorum komin með bæði okkar lið inn. Ástæðan er COVID 19 eins og allir þekkja.

Við trúum því að kvennaliðið okkar hefði farið alla leið í úrslitakeppni Íslandsmótsins og erum reyndar viss um að þær hefðu skilað 2 bikurum í bæinn því ég er sannfærð um að þær hefðu unnið Kjörísbikarinn og einnig Íslandsmeistaratitilinn 2020 því þær voru mjög sannfærandi og voru búin að vinna þessi lið sannfærandi.

Strákanir voru á uppleið og stemmingin góð fyrir Bikarkeppninni og þeir vour sannfærðir um að vinna undanúrslitaleikinn og komast þannig í úrslitaleikinn. En því miður þá varð ekkert að þessu og við vonumst til þess að allt starf komist af stað á eðlilegan máta næsta haust.

 

Þjálfarar

Nýjir þjálfarar komu til félagsins í haust en það voru landsliðsþjálfara kvenna, þau Borja Vincente Gonzales og Ana Maria Vidal. Þau höfðu verið í 3 ár hjá Þrótti Neskaupstað og náð góðum árangri þar.  Þau tóku við sem aðal- og aðstoðarþjálfaarr mfl kvk ástamt styrktarþjálfun kvenna. Borja sá einnig um þjálfun 2.fl. stúlkna.

Poitr Kempisty hélt áfram með mfl kk og 1.deild kk ásamt 4.fl drengja og stúlkna og einnig tók hann við 6. og 7.fl  barna.  Quentin Moore sem kom til mfl kk sem aðstoðarþjálfari og styrktarþjálfari og leikmaður, einnig kom hann með Piotr í þjálfunina hjá krökkunum.

Skólamót

UMSK hefur undanfarin 2 ár staðið fyrir skólamóti innan UMSK svæðisins og í október  voru um 600 krakkar sem mættu á annað mótið og skemmtu sér hið besta.

Okkur í Blakdeild Aftureldingar þótti leitt að sjá að Varmárskóli tók ekki þátt í mótinu annað árið í röð. Þetta verkefni er komið til að vera og í haust mun UMSK standa að þriðja mótinu og þá mun það verða í Fellinu hér á Varmársvæðinu og vonumst við til þess að skólarnir hér í bæ taki fullan  þátt í þessum skemmtilega degi og íþróttakennarar í Mosfellsbæ taki vel í að vera með blak í upphafi skólaárs því þetta skiptir sköpum fyrir fjölgun yngri iðkenda í deildinni þar sem þetta er eina alvöru kynningin sem er í boði.

Árangur leiktíðarinnar 2019-202 læt ég fylgja hér með þar sem sú leiktíð hefur verið blásin af og aðalfundurinn óvenjulega seint:

Mizunodeild kvk: Komnar í undarúslitin

Mizunodeild kk: Enduðu í 5.sæti

Kjörísbikar kk og kvk: Bæði liðin komin í FINAL 4 helgina

Bikarmeistarar í 2.flokki stúlkna

Hilmir Berg Halldórsson varð Bikarmeistari með Þrótti Nes í 2.fl. pilta

Hilmir Berg og Sigvaldi Örn Óskarsson  spiluðu með Þrótti Nes í 2flokki pilta  og urðu Íslandsmeistarar með þeim.

3.fl. stúlkna í öðru sæti í Bikarkeppni yngri flokka

4.fl. stúlkna í öðru sæti í Bikarkeppni yngri flokkal

Deildarmeistari í 1.deild kvenna var Afturelding B sem samanstóð af 2.og 3.fl. stúlkum.

Deildarmeistarar í 1.deild karla var Afturelidng B sem var sambland af 2.fl. leikmönnum og mfl leikmönnum

Ekki náðist að spila úrslitakeppnir í neinumi deildum vegna COVID 19 og lauk leiktíðinni með síðasta leik Aftureldingar B og Aftureldingar X í 1.deild kvk þann 11.mars 2020 og var það síðasti leikurinn sem spilaður var í blaki  á þessari leiktíð.

Þakkir

Foreldrar innan blakdeildarinnar skipta gríðarlega miklu máli því án þeirra væri starfið ógerningur.  Margir fullorðnir blakarar eiga börn í deildinni og eru því oft að vinna vinnu bæði sem foreldri og einnig sem iðkandi í eldri hópum og ber það að virða því þetta fólk er að leggja mikið á sig fyrir deildina okkar og fyrir framtíð deildarinnar og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir þeirra framlag.

Blakdeild Aftureldingar leggur sitt af mörkum hvað blakið varðar á landsvísu því við eigum fólk sem starfa í nefndum og ráðum hjá Blaksambandi Íslands en það er eitt af því sem fylgir þegar deild er orðin stór á landsvísu og það er okkar deild klárlega þó við séum ekki mjög mörg eða mjög gömul miðað við aðrar blakdeildir í landinu.

Ég vil minna okkur öll á það að við skiptum öll máli hvort fyrir annað, allar deildir, allir  hópar, allur aldur. Við þurfum öll á hvort öðru að halda því það hefur verið aðalsmerki Blakdeildarinnar í gegnum árin að okkur hefur auðnast að halda samvinnu þvert á hópa og aldur og flestir hafa verið boðnir og búnir til að aðstoða á mótum hvors annars.

Fyrir fámenna deild skiptir þetta miklu  máli því hvert verkefni er stórt og krefst ákveðins fjölda svo framkæmanlegt sé.  Við skulum þakka fyrir þessa samvinnu því hún er ekki sjálfsögð.

Ég vil  einnig þakka sérstaklega öllum stjórnarmeðlimum í ráðum deildarinnar fyrir þeirra mikla og óeigingjarna starf á liðnu starfsári og starfsárum í  mörgum tilfellum og sérstakar þakkir fá þau ykkar sem hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram en með þá von í brjósti að það megi leita til ykkar áfram.

 

Megi næsta leikár verða frábært.

Guðrún Kristín Einarsdóttir
formaður blakdeildar Aftureldingar