Skýrsla stjórnar

Allir meðlimir þeirrar stjórnar sem skipuð var haustið 2018 gáfu kost á sér til áframhaldandi setu fyrir utan Erlu Edvardsdóttur sem gekk í Aðalstjórn, í hennar stað kom Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir inn í stjórnina. Í stjórn sitja  Eygerður Helgadóttir, formaður, Berglind J. Richardsdóttir, varaformaður, Guðbjörg Snorradóttir, gjaldkeri, Þórhildur Katrín Stefánsdóttir, ritari og Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir, meðstjórnandi.

Fastráðið starfsfólk

Ingibjörg Antonsdóttir hélt áfram í stöðu deildarstjóra fimleikadeildarinnar í 100% starfi auk þess sem hún sá um þjálfun yngstu hópanna. Alexander Sigurðsson var yfirþjálfari í 100% starfi. Anna Valdís Einarsdóttir í 50% stöðu. Á haustönn 2019 kom Catalin Chelbea  inn í 70% þjálfarastöðu þegar Anna Valdís minnkaði við sig. 

Annað starfsfólk

12 þjálfarar starfa hjá deildinni, auk yfirþjálfara og fastráðins þjálfara. Aðstoðarþjálfarar eru 13 talsins. Áhersla hefur verið lögð á að bæta hæfni og menntun þjálfara. Þjálfarar hafa sótt námskeið á vegum FSÍ á hverju ári og bætt þar við þjálfaramenntun sína. Þetta eru almenn námskeið á þeirra vegum, móttökunámskeið, dómaranámskeið o.fl. Að auki hefur deildin sent þjálfara á þjálfaranámskeið í Ollerup og var engin undantekning á því þetta árið þegar tveir þjálfarar frá okkur sóttu framhaldsmenntun þar. Ennfremur þykir mikilvægt að hefja fimleikaárið á fræðslufundi og hefur fimleikadeildin undanfarin ár séð um að skipuleggja þess háttar fundi fyrir þjálfara deildarinnar. Afturelding hélt sameiginlegan starfsdag fyrir allt starfsfólk félagsins í byrjun hausts 2019, líkt og árið áður. Starfsdagurinn var mjög vel sóttur af þjálfurum fimleikadeildarinnar. 

Auk þess að annast þjálfun hafa nokkrir þjálfarar frá vori 2018 fengið greitt fyrir viðveru í fimleikasalnum þegar salurinn er leigður út undir afmæli og bekkjarkvöld. Hlutverk starfsfólks í sal er að gæta þess að farið sé að reglum í salnum og að annast frágang svo ekki skapist aukið álag á starfsfólk íþróttahússins vegna útleigunnar.

Húsnæði og áhöld

Eins og undanfarin ár hefur stjórn deildarinnar talið mikilvægt að halda áfram að endurnýja áhaldakost deildarinnar.  Áhöld sem keypt voru árið 2019 voru: Myndbúnaður frá Origo. Skjár á hjólum með innbyggðu seinkunarkerfi fyrir upptökur. Tæknibúnaður til þess að nota við leiðréttingu í þjálfun. Protrack loftdýna, tvö stökkbretti, tvær jafnvægisslár, flikkpúði fyrir 9-16 ára. Einnig voru smíðaðar tvær upphífingarstangir sem voru settar upp í einu horni salarins.

Í mars voru einnig settir upp nýjir rimlar sem við höfum beðið lengi eftir frá bænum og fögnum því innilega og eiga eftir að nýtast iðkendum vel. Bærinn áformar einnig að setja upp kaðla og fleiri áhöld í salinn. 

Enn hefur ekkert gerst í rakamálum varðandi fimleikasalinn. Raki sem myndast undir dansgólfinu veldur skemmdum á dansgólfinu þar sem svampurinn þéttist og veldur því að undirlag gólfsins stenst ekki kröfur.  Einnig lekur húsið í ákveðnum veðurskilyrðum. Í byrjun árs 2019 sendi stjórn fimleikadeildar formlegt erindi til Aðalstjórnar Aftureldingar vegna þessa og fer vonandi að koma lausn á því máli. 

Flokkar og iðkendur

Iðkendur á vorönn 2019 voru samtals 302. Á haustönn 2019 voru iðkendur fimleikadeildar samtals 338, á sumarönn voru 133 iðkendur. Ánægjulegt var að sjá fjölgun iðkenda átti sér stað milli vor og haustannar og má mögulega skýra vegna ánægju iðkenda á vor- og sumarönn og meiri stöðugleika og gæði í þjálfun.  

FFA og fullorðinsfimleikar æfðu áfram saman á haustönn og var æfingum fjölgað aftur upp í tvisvar í viku en það var gert vegna óska frá iðkendum þessa flokks. 

Grunn og framhaldshópar voru áfram í boði snemma dags en mikil ánægja hefur ríkt varðandi þá tímasetningu en þeirra tímar voru í boði kl.14 fyrir iðendur úr Varmárskóla og kl. 15 fyrir hina skólana. Leikskólahópar voru í boði á sunnudögum og fimmtudögum. 

Keppnishópar árið 2019 voru fimm talsins: 2. flokkur, 3. flokkur, 4. flokkur, 5. flokkur og KK-yngri, hér fyrir neðan má sjá samantekt á starfi hvers flokks fyrir sig:

5.flokkur 

Vorönn 2019: Vinamót nettó, þær stóðu sig með mikilli prýði. Bæði 5. flokks liðin fengu verðlaun fyrir góðan árangur í dýnustökkum,  vorsýning 31.maí. 

Haustönn 2019: Aðventumót Gerplu 7. desember undirbúningur fyrir komandi keppnistímabil 2020.

4.flokkur 

Vorönn 2019: Lið 1 fór á Bikarmót og lenti í 6.sæti sem er virkilega góður árangur. Íslandsmót, A deilda mót, lið 2 fór á Vinamót á Selfossi. Þau voru með hæstu einkunn í sínum flokki og fengu verðlaun fyrir góðan árangur í trampólínstökkum. Allur 4.flokkur fór svo í hópeflisæfingaferð til Keflavíkur, Vorsýning 31.maí. 

Haustönn 2019:  Í 4. Flokk voru margir að fara á sitt fyrsta mót og gekk þeim mjög vel en þar var hæsta einkunn þeirra í dansi. Þau fengu 12.750 stig þar. Allt í allt lentu þau í 13 sæti af 23 liðum. 

3.flokkur 

Vorönn 2019: Bikarmót, þær stóðu sig mjög vel og fengu sína hæstu einkunn í dansi. Íslandsmót, Vorsýning 31. maí

Haustönn2019: Haustmót, 3. flokkurinn stóð sig mjög vel, við sendum 2 lið í þeim flokki. Lið B stóð sig mjög vel en hæsta einkunn þeirra var í dansi þar sem þau fengu 12.050.  A liðið Lenti í 5. sæti af 18 liðum með 38.570 stig í heildina sem er bæting um 3.8 og skilar þeim í A deild út keppnistímabilið. 

2.flokkur 

Vorönn2019: WOW Bikarmót, stóðu uppúr á dýnu og fengu hæstu einkunn, þær lentu í 2.sæti en voru aðeins 0.05 stigum frá fyrsta sæti á dýnu. Íslandsmót 3.sæti, Vorsýning 31.maí. 

Haustönn 2019: Haustmót,  lentu í 5. sæti af 12 liðum sem er virkilega flottur árangur í þessum flokki og er það mikil bæting en fyrir ári síðan voru þær í 10. sæti. það er bæting um  4.0 stig

Í júlí fóru þær saman í æfingaferð til Akureyrar og var það mikið fjör.

Drengjahópur 

Vorönn 2019: WOW Bikarmót, stóðu uppúr á dýnu og lentu í 2.sæti,  Íslandsmót 2.sæti, Hópeflisæfingaferð til Keflavíkur.

Haustönn 2019:  Haustmót, þeir lentu í 2. sæti og bættu sig um 1.5 stig frá síðasta móti. Þeir toppuðu sig á trampólini og voru með hæstu einkunn þar í sínum flokki. Þeir hafa staðið sig virkilega vel og náð miklum framförum.

 

Búningar

Undanfarin ár hefur fimleikadeildin lánað elstu keppendum deildarinnar heilgalla frá Chopar fyrir öll mót, engin undantekning var á því þetta árið og hefur verið mikil ánægja með þetta form í foreldrahópnum. Fimleikafatnaðurinn frá Chopar sem yngri iðkendur nota við æfingar og keppni fluttust yfir til Jako og voru í sölu þar, enda hefur samstarfið við þau gengið vel. Jako sér einnig um að selja öllum iðkendum fimleikadeildarinnar félagstreyjuna, sem er rennd hettupeysa með merki Aftureldingar á. Einnig sér Jako þjálfurum deildarinnar fyrir fatnaði sem þau nota við æfingar og mót.

Sýningar

Vorsýning fimleikadeildar var haldin 31.maí í sal 3 og var þemað Fríða og Dýrið.  Ingibjörg Antonsdóttir deildarstjóri skipulagði og undirbjó þessa sýningu fagmannlega og úr varð hin glæsilegasta sýning. Allir tóku þátt frá fjögurra ára aldri og uppúr. 

 

Fjáröflun

Stærsta fjáröflun deildarinnar er útleiga á fimleikasalnum undir afmæli og bekkjarkvöld ásamt fastri leigu fyrir stóran hóp iðkenda úr öðru fimleikafélagi þar sem þau bíða eftir nýjum sal í sínu sveitarfélagi. Afmælisleigan hefur aukist mjög eins og sjá má í ársreikningi. Yngstu þjálfararnir hafa verið mjög duglegir að vinna við þessa afmælisleigu og sjá til þess að vel sé gengið um salinn. 

Mótahald

Helgina 10-12. maí 2019 héldum við Íslandsmót Unglinga í TeamGym ( 2. – 1. flokkur ). Á mótinu keppti fjöldi liða og var keppt bæði laugardag og sunnudag. Mótið gekk mjög vel og skipulagið til fyrirmyndar en fjöldi þjálfara, foreldra og iðkenda lagði hönd á plóginn. 

Afmælishátíð

Haldið var uppá 20 ára afmæli fimleikadeildar Aftureldingar sunnudaginn 1.september. Í boði var súkkulaðikaka og mjólk og aðastjórn færði deildinni blómvönd og platta og þökkum við þeim kærlega fyrir hlýhuginn. Í tilefni afmælisins fengum við til okkar virkilega reynda og flotta þjálfara frá Danmörku þau Kenneth Hedegaard Christiansen, Steven Nash og Julie Bjornskov Knudsen. Þau voru með tveggja daga námskeið fyrir okkar þjálfara og iðkendur í keppnishópum og græddu allir á þessari heimsókn. 

Uppskeruhátíð

Helena Einarsdóttir og Guðjón Magnússon eru fimleikafólk Aftureldingar 2018.

Þann 27. desember 2019 var uppskeruhátíð Aftureldingar og tilnefndum við Ísabellu Ósk Jónsdóttur og Ármann Sigurhólm Larsen til íþróttamanns og íþróttakonu Aftureldingar og hlutu þau viðurkenningu sem fimleikakona og fimleikamaður Aftureldingar 2019.

Sumarnámskeið

Boðið var upp á sumarnámskeið og sumaræfingar í júní og ágúst 2019 og voru þau vel sótt, sumarnámskeið fyrir börn á aldrinum 6-10 ára voru haldin í sjö vikur og æfingar keppnishópa voru þrisvar í viku í júní og ágúst. Deildin fékk stuðning frá Mosfellsbæ varðandi sumarstarfsfólk ásamt því að ráða inn sitt eigið starfsfólk.

Ársreikningur

Auknar rekstrartekjur 2018 samanborið við 2019 koma til vegna lækkunar æfingagjalda hjá leikskólahópum og framhaldshópum. Einnig hættu iðkendur í 1. flokki og sá flokkur lagður niður. Þar að auki greiddi fjöldi iðkenda sem greiddu æfingagjöld fyrir vorönn 2019 í desember árið áður. Tekjurnar voru því bókfærðar á árinu 2018 sem útskýrir þennan mun. Árið á undan hafði fimleikadeildin einnig fengið áhaldastyrk upp á 2.000.000 kr. frá Mosfellsbæ sem ekki var árið 2019. Leigan á salnum fór enn og aftur fram úr björtustu vonum og jukust tekjur um rúmar 600.000kr á milli ára. Eins og fyrri ár þá var helst verið að leigja salinn undir afmæli og bekkjarkvöld en einnig voru önnur fimleikafélög að leigja salinn undir æfingar hjá sér.

Gjöld deildarinnar hækkuðu um rúmar ellefu milljónir á milli ára. Hækkunin er að mestu leyti aukinn launakostnaður en gert var ráð fyrir þeirri hækkun í fjárhagsáætlun. Föst stöðugildi fóru úr því að vera 2,75 (2018) í 3,2 (2019).  Hlutfall annarra þjálfara og aðstoðarþjálfara var svipað á milli ára. Verktakagreiðslur á árinu 2019 voru vegna fyrirlestra fyrir starfsmenn, framkomu á vorsýningu og sjúkravakta á mótum. 
Eins og áður hefur komið fram að þá var keyptur ýmis nauðsynlegur búnaður í salinn okkar sem hefur gert það að verkum að salurinn okkar er orðinn nokkuð vel búinn búnaði sem er keppnishæfur.
Liðurinn “Þátttaka í mótum” hækkar töluvert á milli ára en það er vegna þess að í desember 2019 var greiddur reikningur vegna Ollerup æfingaferðar sem farin verður sumarið 2020. Kostnaðurinn verður að mestu greiddur niður af foreldrum fyrir utan námskeið sem þjálfarar frá okkur munu fara á.
Við viljum fjárfesta í okkar frábæru þjálfurum og gerðum við enn betur en árið áður að senda þjálfarana okkar á námskeið og fyrirlestra og er því einnig nokkur hækkun á þeim gjaldalið frá árinu áður. 


Ólíkt árunum á undan þá er rekstrarniðurstaða ársins 2019 taprekstur upp á tæpar fjórar milljónir. Það skýrist af því að æfingagjöld voru greidd á árinu á undan þar sem skráning opnaðist í desember í stað janúar. Eins og hefur verið gert skil á hér á undan er ástæðan einnig aukin launakostnaður og kaup á ýmsum búnaði fyrir salinn. Fimleikadeildin átti vel inni fyrir þessum útgjöldum og kom tapreksturinn því ekki á óvart, deildin er vel sett fjárhagslega og verða því æfingagjöld óbreytt að minnsta kosti út árið 2020.