Skýrsla barna- og unglingaráðs

Handboltaveturinn 2019-2020 hefur verið óvenjulegur hjá yngri flokkum félagsins sökum ástandsins í samfélaginu. Ákvörðun var tekin 13. mars að öllum yngri flokka mótum HSÍ yrði frestað um óákveðin tíma. Í framhaldi féll allt skipulagt íþróttastarf yngri flokka niður. Á meðan á því stóð kepptust þjálfarar flokkanna við að setja inn ýmis konar heimaæfingar á Sideline og á samfélagsmiðla fyrir iðkendur sína. Þar mátti sjá meðal annars þjálfara okkar leika hinar ýmsu æfingar eftir á eftirminnilegan hátt. Hefðbundnar æfingar hófust síðan aftur mánudaginn 4. maí, öllum til mikillar gleði. Mæting hjá iðkendum eftir þetta langa hlé hefur almennt verið góð. Barna- og unglingaráð stefnir að því að halda æfingum áfram út júní og bæta þannig iðkendum upp þann tíma sem tapaðist.

Mótahald

Til stóð að Barna- og unglingaráð héldi þrjú yngri flokka mót HSÍ. Tveimur mótum af þremur var lokið áður en COVID-19 skall á. Fyrsta mótið var fyrir 5. flokk kvenna eldra ár sem haldið var helgina 15.-17. nóvember. Alls tóku þátt 21 lið frá 14 félögum. Mótið var styrkt af Blackbox Pizza. Annað mótið var Pågen mótið fyrir 8. flokk kvenna og karla sem haldið var helgina 7.- 9. febrúar. Mótið var hið glæsilegasta og mættu 114 lið til leiks. Spilaðir voru yfir 260 leikir í öllum sölum Varmá. Á þessu móti eru yngstu iðkendur í handboltastarfi að spreyta sig og skemmtilegt að fylgjast með gleðinni skína úr andlitum krakkanna. Styrktaraðili mótsins Ó.Johnson & Kaaber sá til þess að krakkarnir færu heim með verðlaunapening um hálsinn, Pågen snúða og sundpoka. Auk þeirra hefur MS og Krónan styrkt okkur með vörum í sjoppuna á mótum. Færum við fyrrnefndum fyrirtækjum bestu þakkir fyrir samstarfið.

Mótin hafa gengið mjög vel og BUR fundið fyrir ánægju meðal iðkenda, aðstandenda þeirra, mótastjóra HSÍ sem og starfsmanna íþróttamiðstöðvar. Til þess að mótin gangi vel þarf að stóla á góða samvinnu sem og stuðning ýmissa aðila. Dómarar í leikjum eru allra jafna leikmenn meistaraflokks karla og kvenna auk iðkenda úr 3. flokki. Þá hafa krakkar úr 4.-6. flokki mannað ritaraborð og verið félaginu til sóma auk þess sem foreldrar iðkenda hafa aðstoðað í sjoppu. Aðstoð þessara aðila er okkur mikils virði og hluti af því að mótin gangi vel fyrir sig.  Þriðja mótið átti að fara fram helgina 24.-26. apríl fyrir 5. flokk drengja eldra en það féll niður. Mótið er stór þáttur í fjáröflun BUR og gefur því augaleið að það er stór biti að missa slíkt mót út. Til stendur að halda eitt sumarmót á vegum HSÍ fyrir sama flokk, helgina 5.-7. júní.

Fjölgun iðkenda

Í maí 2020 voru 248 iðkendur skráðir í yngri flokkum deildarinnar sem er fækkun frá því í febrúar 2019 þegar 274 iðkendur voru skráðir í deildina. Ekki liggja fyrir skýringar á þessari fækkun iðkenda. Ef horft er til vorsins 2018 voru 211 iðkendur skráðir. Mjög áhugavert væri að Afturelding sem félag skoðaði nánar hvað hafi áhrif á fækkun iðkenda milli ára. Það á að vera okkur öllum kappsmál sem störfum fyrir félagið að koma í veg fyrir brottfall og börn í bæjarfélaginu fái tækifæri til að iðka einhverja af þeim fjölmörgu íþróttagreinum sem standa til boða.

Þjálfaramál

Einar Andri Einarsson lætur nú að störfum sem yfirþjálfari yngri flokka. Einar tók við sem yfirþjálfari haustið 2015 og líkt og í starfi sínu sem þjálfari meistaraflokks kom hann inn með mikla þekkingu og reynslu sem handknattleiksþjálfari. Stjórn barna- og unglingaráðs hefur unnið í nánu samstarfi með Einari að því að stýra starfi yngri flokka og efla veg þess og virðingu. Við viljum færa honum bestu þakkir fyrir samstarfið og óskum honum velfarnaðar í nýjum störfum.

Við starfi hans tekur annar öflugur þjálfari, Gunnar Magnússon. Gunnar hefur starfað undanfarin ár sem þjálfari meistaraflokks Hauka auk þess að gegna hlutverki íþróttastjóra handknattleiksdeildar félagsins. Ásamt Gunnari höfum við á að skipa reynslumiklum og góðum þjálfurum í bland við yngri og efnilegri þjálfara. Að auki hafa nokkrir iðkendur úr 4. flokki kvenna og karla fengið tækifæri til að vera leiðbeinendur í 7.-8. flokki. Það eru því áfram bjartir tímar framundan hjá yngri flokkum félagsins.

Framfarir iðkenda

Það er alltaf ánægjulegt fyrir þjálfara flokkanna, foreldra og aðra aðstandendur að fylgjast með þeim framförum sem eiga sér stað hjá iðkendum okkar á keppnistímabilinu. Það sést oft bersýnilega hjá yngstu iðkendunum frá því að þau mæta á fyrsta mót að hausti og fram að síðasta móti að vori. Í vetur hefur árangur 5. flokks karla eldra ár og 6. flokks karla yngra ár vakið eftirtekt en báðir þessir flokkar höfðu tryggt sér Íslandsmeistaratitil áður en mótum HSÍ var aflýst. Á dögunum tilkynnti því HSÍ að þessir flokkar væru krýndir Íslandsmeistarar. Drengirnir í 5. flokki eru fjórfaldir meistarar og strákarnir í 6.flokki að tryggja sér fyrsta mögulega titilinn. Stjórn BUR óskar þeim og þjálfurum þeirra innilega til hamingju.

 

Við sem sitjum í stjórn Barna- og unglingaráðs handknattleiksdeildar höfum ákveðið að láta af störfum eftir þrjú farsæl ár. Allir í fráfarandi stjórn eru sammála um að þessi tími hafi verið lærdómsríkur, krefjandi en fyrst og fremst skemmtilegur. Við höfum lagt okkur fram um að vera í góðu samstarfi við þá aðila sem koma að starfinu og efla yngri flokka starf deildarinnar. Við viljum sérstaklega þakka þjálfurum deildarinnar, iðkendum, foreldrum, starfsfólki skrifstofu Aftureldingar, aðalstjórn Aftureldingar, HSÍ og helstu bakhjörlum deildarinnar (Bakka og MP verk) fyrir samvinnuna á síðustu árum.

Við erum stolt af okkar verkum í stjórn, staða ráðsins er góð og göngum við því sátt inn í sólarlagið.

Með baráttukveðju,
Stjórn Barna og unglingaráðs