Skýrsla meistaraflokks karla

Tímabilið 2019/20 tefldi Afturelding fram afar öflugu liði líkt og fyrri ár, Hrannar Guðmundsson kom inní þjálfarateymið með Einar Andra Einarssyni, Ásgeiri Jónssyni og Pálmari Péturssyni markmannsþjálfara. Eins og fyrra ár sá Guðjón Örn um styrktarþjálfun drengjanna. Breytingar urðu einnig á leikmannahópi þar sem Elvar Ásgeirsson var seldur til Stuttgart í Þýskalandi þar sem hann leikur nú sem atvinnumaður við góðan orðstýr, Finnur Ingi Stefánsson fór í Val, Sturla Magnússon hætti og Emils Kurzmiensk fór til Ítalíu.

Breytingar á leikmannahópi og árangur liðsins

Nýjir leikmenn fyrir tímabilið voru Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, Sveinn Jose Rivera, Guðmundur Árni Ólafsson og Karolis Stropus sem allir reyndust miklir hvalrekar fyrir félagið. Eyþór Örn Ólafsson kemur síðan til félagsins að láni frá FH á miðju tímabili þar sem Gestur Ólafur Ingvarsson varð fyrir því óláni að slíta krossband í annað skiptið á stuttum tíma.

Liðinu gekk vel á tímabilinu og skilaði það sér í Final 4 í Höllinni þar sem liðið tapaði fyrir Stjörnunni í æsispennandi leik, svekkjandi niðurstaða en góður árangur að komast í Höllina. Covid-19 setur síðan mikin svip á leiktíðina eftir áramót sem var að lokum flautuð af þegar 2 leikir voru eftir af deildarkeppni. Liðið stóð þá í 3 sæti deildarinnar eftir 20 leiki, jafnt Haukum af stigum og 3 stigum frá efsta sæti. Ljóst var að æsispennandi úrslitakeppni var framundan þar sem allt gat gerst, því miður varð ekkert af því sökum ástandsins í heiminum öllum, svekkjandi niðurstaða fyrir liðið og alla sem koma að starfinu. Þar með lauk síðasta starfsári Einars Andra með liðið og vill meistaraflokksráð karla þakka Einari Andra sérstaklega fyrir frábært starf í þágu félagsins.

Handboltakveðja,

Haukur Sörli Sigurvinsson,
formaður meistaraflokksráðs karla