Skýrsla meistaraflokks kvenna

Meistaraflokkur kvenna náði þeim áfanga að komast upp í Olísdeildina fyrir tímabilið 2019-2020 og spilaði því í efstu deild í vetur.  Því miður gekk liðið ítrekað á móti straumnum, m.a. vegna mikilla meiðsla og erfiðlega gekk að slípa það til, þ.a. flugið náðist seint.  Fyrstu stigin komu ekki í hús fyrr en í þriðja síðasta leiknum, sem síðan reyndist síðasti leikur tímabilsins þar sem deildin var blásin af vegna Covid-19 faraldursins.  Það varð til þess að liðið féll aftur í Grill-66 deildina og mun spila í henni á næsta tímabili.  Í bikarkeppninni sló lið HK okkar stelpur naumlega út í 16 liða úrslitum, eftir æsispennandi og dramatískan leik þar sem munurinn var aðeins eitt mark að lokum.

Breytingar á þjálfarateymi

Þjálfarateymið tók breytingum á tímabilinu en í desember stigu þeir Haraldur Þorvarðarson og Daði Hafþórsson til hliðar.  Við liðinu tóku Guðmundur Helgi Pálsson og Einar Bragason, en Einar hafði þegar komið að þjálfun markvarða.  Margrét Ársælsdóttir sá um sjúkraþjálfun í leikjum en einnig sinnti Garðar Guðnason sjúkraþjálfari leikmönnum.

Aukinn liðsstyrkur

Í haust kom liðsstyrkur erlendis frá þegar þær Anamaria Gugic frá Króatíu og Roberta Ivanauskaité frá Litháen gengu í raðir liðsins.  Því miður hefur Roberta verið óheppin með meiðsli í vetur og ætlar því að taka sér hlé frá handbolta á næsta tímabili og einbeita sér að endurhæfingu sinni.  Fleiri áttu einnig í meiðslum í vetur sem höfðu mikil áhrif og má nefna nöfnurnar Þóru Guðnýju Arnarsdóttur og Þóru Maríu Sigurjónsdóttur sem báðar duttu út, auk Írisar Kristínar Smith.  Þá sneri Kiyo Inage heim til Japan sl sumar og eignaðist sitt fyrsta barn í vetur.  Kristín Arndís Ólafsdóttir kom aftur á lánssamningi frá Val og Heiðrún Berg Sverrisdóttir kom einnig þaðan eftir áramótin.  Silja Ísberg og Sara Kristjánsdóttir komu frá ÍR, en Silja stoppaði stutt.  Þá bættust Þórunn Friðriksdóttir, Ásdís Alexandersdóttir og Susan Barinas í hópinn og Telma Rut Frímannsdóttir sneri aftur í boltann og sýndi að hún hefur engu gleymt.  Þessu til viðbótar hafa ungir og efnilegir leikmenn stigið upp og leikið stór hlutverk með liðinu í vetur, svo sem Eva Dís Sigurðardóttir og Katrín Helga Davíðsdóttir sem nú ganga upp úr þriðja flokki.

Mikil orka fór í móttöku erlendra leikmanna, að vera í fyrsta sinn í efstu deild og að lenda í miklum meiðslum í vetur.  Þetta reyndi mikið á leikmenn, þjálfara og meistaraflokksráð, en fólk vann vel saman og tókst á við áskoranir í sameiningu.  Það varð þó ekki hjá því komist að gera breytingar, en nú er horft til framtíðar og í því samhengi hefur verið samið við Guðmund Helga til þriggja ára.  Liðið er að miklu leiti byggt upp af uppöldum leikmönnum Aftureldingar en auk þeirra er flottur hópur sem vinnur vel saman og skapar góðan liðsanda.

Meistaraflokksráðið er skipað góðu fólki sem er annt um framtíð kvennahandboltans í Aftureldingu og vill veg hans sem bestan.  Erla Dögg Ragnarsdóttir hefur verið formaður og Svava Ýr Baldvinsdóttir meðstjórnandi en eftir að Guðfinna Ármannsdóttir sagði af sér sem gjaldkeri í vor hefur tekið tíma að fylla skarð hennar.  Sverrir Hermann Pálmarsson gerði það tímabundið en þurfti að hætta af perónulegum ástæðum og því hefur Sigurður Hansson tekið við hlutverkinu.  Auk þeirra Erlu, Svövu og Sigga er öflugur hópur fólks í ráðinu og er vonin sú að það vaxi og dafni enn frekar.  Lagt hefur verið upp með að skapa góða umgjörð í kringum liðið, heimaleiki og starfið almennt, m.a. með sýnileika ráðsliða og því að skipuleggja mismunandi hlutverk fólks í kringum heimaleiki.  Þetta þykir okkur hafa tekist vel og munum leggja sem grunn í starfinu á næsta tímabili.

Áfram Afturelding – áfram stelpur

Erla Dögg Ragnarsdóttir,
formaður meistaraflokksráðs kvenna