Skýrsla meistaraflokksráðs karla

Árið 2018 fer í sögubækurnar hjá meistaraflokki karla en í fyrsta skipti náði liðið að vinna 2. deildina. Afturelding hefur leikið undanfarin níu ár í 2. deild en spilar nú í Inkasso-deildinni árið 2019 sem er mikið fagnaðarefni.

Miklar breytingar urðu á leikmannahópnum frá því árið 2017 auk þess sem nýr þjálfari, Arnar Hallsson, tók við liðinu með Magnús Má Einarsson sér til aðstoðar. Undirbúningstímabilið fór í að móta leikmannahópinn og eftir nokkuð brösuga byrjun í æfingaleikjum fóru hjólin að snúast með vorinu.  Liðið fór alla leið í úrslit í B-deild Lengjubikarsins en tapaði þar gegn Völsungi í hörkuleik.  Í Borgunarbikarnum mættu okkar strákar liði KR í 32-liða úrslitum fyrir framan fjölda áhorfenda á Varmárvelli.  Andri Freyr Jónasson kom Aftureldingu yfir snemma leiks en síðan tóku KR-ingar völdin og unnu sannfærandi sigur.

Deildarmeistarar í 2. deild karla

1-1 jafntefli varð niðurstaðan í fyrsta leik í 2. deildinni en um var að ræða leik gegn Völsungi á Húsavík.  Eftir það vann Afturelding sex leiki í röð og kom sér þægilega fyrir á toppi deildarinnar. Um mitt mót hikstaði liðið og spiluðu þar meðal annars inn í breytingar á leikmannahópnum þar sem nýir leikmenn komu inn fyrir leikmenn sem fóru til Bandaríkjanna í nám. Eftir sex leiki í röð án sigurs komust okkar menn aftur í gang og unnu sex af síðustu sjö leikjunum í deildinni. 3-1 útisigur á Hetti í lokaumferðinni gulltryggði sigur í deildinni og sæti í Inkasso-deildinni að ári. Langþráðu markmiði náð.

Ungir heimamenn fengu tækifærið

Auk þess að vinna deildina þá skoraði Afturelding flest mörk allra liða eða 58 talsins. Sóknarboltinn var í fyrirrúmi og Afturelding skoraði í öllum leikjum sumarsins nema einum.  Andri Freyr Jónasson fór fremstur í flokki í markaskorun en hann var markahæstur og bestur í deildinni með 21 mark í 18 leikjum.  Andri var valinn í lið ársins í 2. deildinni líkt og varnarmaðurinn öflugi Loic Ondo. Andri Þór Grétarsson, Jose Dominguez, Jason Daði Svanþórsson og Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban voru allir á bekknum í liði ársins.

Leikmannahópurinn var að mestu skipaður ungum og efnilegum leikmönnum en margir þeirra voru að spila sitt fyrsta tímabil í meistaraflokki. Þar á meðal voru ungir heimamenn sem fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína og gripu það vel.

Aðstöðumál

Æfingaaðstaðan var erfið en meistaraflokkur fær sjaldan heilan völl til æfinga á Varmárvelli og á köflum í sumar mátti 22 manna leikmannahópur sætta sig við að æfa á 1/4 hluta af velli hluta æfingar. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs og eitthvað sem þarf að bæta. Eins er búningsklefi meistaraflokks karla langt frá því að vera á pari við önnur lið í efstu deildum. Betri æfinga og búningsaðstaða er nauðsynleg til að hjálpa strákunum okkar að taka ennþá frekari framförum á næstu árum.

Það er mikil tilhlökkun í hópnum fyrir komandi verkefni í næstefstu deild og einnig von um að úr aðstöðumálum verði bætt sem allta fyrst

F.h. meistaraflokksráðs karla,
Geir Rúnar Birgisson