Skýrsla stjórnar

Körfuknattleiksdeild Aftureldingar heldur áfram að stækka og dafna. Mikill áhugi virðist vera á íþróttinni í Mosfellsbæ og fjöldi iðkenda eykst jafnt og þétt. Stefnan er að byggja hægt en örugglega upp sterkan grunn fyrir körfuboltaiðkun meðal barna og ungmenna í Mosfellsbæ.

Skráðum iðkendum hefur fjölgað um rúm 60% milli ára og er það annað árið í röð í slíkum vexti.  Fjölgun er áfram áberandi í yngri flokkum en það rennir styrkum stoðum undir deildina til framtíðar.

Mikill uppgangur í starfinu

Æft er í fjórum flokkum í deildinni og fjölgaði um einn síðastliðið haust. Tveir árgangar æfa saman frá 1. upp í 8. bekk. Krakkarnir eru afar áhugasamir og metnaðarfullir.

Sérstaklega er gaman að fylgjast með fjölgun stúlkna og virðast þær helst skila sér í yngri flokkum. Fyrr í vetur tók í fyrsta sinn stúlknalið frá Aftureldingu þátt í Íslandsmóti.

Í vetur hefur hafa 5. 6. og 7. og 8. flokkur drengja einnig sent lið á Íslandsmót. Lögð er áhersla á þátttöku í félagsmótum fyrir þá yngstu. Þau hafa farið á Sambíómót Fjölnis og Stjörnustríðið í Garðabæ svo eitthvað sé nefnt. Á öllum mótum er lögð áhersla á leikgleði. Stefnt er að því að fjölga um einn flokk í haust og bjóða upp á æfingar í 9. flokki.

Þjálfarar

Þegar Körfuknattleiksdeild Aftureldingar hóf aftur störf haustið 2015 eftir nokkurt hlé var Sævaldur Bjarnason ráðinn aðalþjálfari. Sævaldur er mjög reyndur þjálfari sem hefur leitt velgengni körfunnar í Mosfellsbæ á síðustu árum. Hann hefur fengið unga efnilega þjálfara til liðs við sig en þjálfarateymið hlaut einmitt hvatningarverðlaun Aftureldingar á árinu. Teymið samanstendur af fjórum þjálfurum en auk þeirra hafa drengir úr elsta flokki tekið að sér að aðstoða við þjálfun í yngstu flokkunum.

Síðasta sumar var boðið upp á sumaræfingar í samtals fjórar vikur. Framtakið var mjög vel heppnað en eins og áður var lögð áhersla á fjölbreytni og skemmtun í bland við sígildar boltaæfingar. Markmið var sett um að námskeiðin stæðu undir sér fjárhagslega og gekk það upp auk þess að fjölga iðkendum að hausti.

Öflugur foreldrahópur

Foreldrahópurinn sem er í kringum starfið hefur staðið sig frábærlega í að fylgja krökkunum eftir bæði á æfingum og mótum. Aðalfundur sem haldinn var í febrúar 2019 var afar vel sóttur og foreldrar gáfu kost á sér í stjórn og önnur störf fyrir deildina. Það er virkilega ánægjulegt þar sem þátttaka foreldra í svona starfi er ein helsta  forsenda fyrir velgengni og ánægju barnanna okkar í íþróttum.

Ingvar Ormarsson,
formaður Körfuknattleiksdeildar Aftureldingar