Skýrsla stjórnar

Undir lok árs 2019 urðu örlitlar breytingar á stjórn sunddeildarinnar þegar þrír nýjir meðlimir bættust í stjórn deildarinnar. Formaður, gjaldkeri og ritari héldust þeir sömu.

Uppbygging deildarinnar

Daníel Hannes Pálsson og Hilmar Smári Jónsson deila starfi yfirþjálfara sín á milli og koma þannig með mismunandi sérþekkingu að borðinu. Þeir njóta liðsinnis Karlottu Maríu Þrastardóttur og Aþenu Karaolani.

Sunddeildin skiptist upp í Höfrungahóp, Bronshóp, Silfurhóp og Gullhóp. Skiptingin miðast fyrst og fremst við aldur — 1. og 2. bekkur tilheyra Höfrungum, 3. og 4. bekkir eru í Bronshóp og 5. og 6. bekkir í Silfurhóp — en til að jafna út iðkendafjölda á milli hópa, hefur getustig líka stýrt því hvaða hópum krakkar tilheyra. Gullhópurinn er svo afrekshópurinn. Á vorönn 2019/2020 bættist við auka Höfrungahópur en mikil aukning hefur verið á iðkendum á þeim aldri.

Sundskóli Aftureldingar var að auki starfræktur en hann er ætlaður krökkum í eldri deildum leikskóla, 4 og 5 ára gömlum.

Á vorönn 2020 var svo Sundskólanum haldið við og náðist eitt námskeið áður en Covid skall á. Þó var mikill áhugi á námskeiðinu en því miður þurfti að aflýsa því.

Skriðssundnámskeið fyrir fullorðna voru einnig starfrækt á árinu en einnig þurfti að aflýsa námskeiði þar vegna Covid.

Fyrir jól 2019 var haldið innanfélagsmót, þar sem krakkarnir buðu foreldrum sínum að koma og fylgjast með. Frábær mæting var meðal iðkenda og foreldra.

Í byrjun árs 2020 lét starfandi formaður deildarinnar af störfum og tók meðstjórnandi við keflinu og hefur sinnt málefnum sunddeildarinnar síðan þá. Margir eru því miður óvirkir í stjórn núna og vonumst við til betra gengis á næstu önn.

Staða deildarinnar er því miður ekki góð en verið er að skoða leiðir til að fjölga iðkendum endurreisa orðspor deildarinnar. Núverandi stjórn bauð upp á frítt að prófa að æfa í Silfurhóp í febrúar mánuði en þar var heldur dræm mæting og fáir sem prófuðu. Markmið deildarinnar er því að fjölga iðkendum og bæta slæma stöðu deildarinnar. Verið er að setja á laggirnar fjáröflun í formi auglýsinga á æfingaboli og fatnað þjálfara. Því miður frestaðist það allt vegna ástandsins í þjóðfélaginu en það er von stjórnar að sú fjáröflun gangi eftir í byrjun næsta tímabils.

Sundmót 2019/2020

Í september var Hafsportmót Ármanns í Laugardalslaug og kepptu Gull og Silfurhópur á því móti. Ásdís Gunnarsdóttir var í verðlaunasæti í 5 af 7 greinum sem hún keppti í, fyrsta sæti í þremur og 2 sæti í tveimur. Lína Rut S Halldórsdóttir var einnig í verðlaunasæti í tveimur greinum af þremur og lenti hún í 2 sæti í báðum.

Í október var smámót Aftureldingar og ÍA haldið í Lágafellslaug. Mótið var fyrir 10 ára og yngri og var þetta góð leið til þess að kenna yngstu börnunum hvernig á að keppa á móti. Var þetta liður í samstarfi milli Aftureldingar og ÍA en halda átti 4 mót, 2 á haustönn og 2 á vorönn. Því miður náðist einungis að halda 2 mót, í Lágafellslaug og í Bjarnarlaug á Akranesi.

Í október keppti Gullhópur á Extramóti SH í Ásvallalaug.

Í nóvember var Fjölnismótið haldið í Laugardalslaug og stóðu krakkarnir sig virkilega vel.

ÍM 25 var einnig í nóvember fyrir Gullhópinn.

Jólamót Aftureldingar var síðan haldið í desember í Lágafellslaug. Var það mikil skemmtun fyrir börn og fullorðna.

Í janúar var haldið sundmót í Vatnaveröld í Reykjanesbæ. Mjög góð mæting var hjá börnunum sem stóðu sig virkilega vel og voru miklar framfarir hjá þeim.

Gullhópur keppti einnig á RIG í janúar, en lágmörk þurfti til að komast inn á það mót. 4 iðkendur kepptu fyrir Aftureldingu á því móti og stóðu sig virkilega vel.

Í febrúar var Gullmót KR haldið í Laugardalslaug og voru miklar framfarir hjá Gullhóp á því móti.

Vormót Fjölnis var síðan haldið í Laugardalslaug í lok febrúar og var það síðasta mót fyrir Covid. Gullhópur keppti á því móti og stóð sig mjög vel.

 

F.h. sunddeildar Aftureldingar
Berglind Dís Guðmundsdóttir